sunnudagur, 24. apríl 2011

Páskar

Strákarnir kunna vel að meta páskana. Páskaegg og allt nammið sem fylgir, þetta er eitthvað sem þeir fá nær aldrei, a.m.k. ekki í þetta miklu magni :-D

Andrea faldi eggin í gærkvöldi en í morgun datt mér í hug að búa til smá leik þannig að ég sótti Post-it miða, teiknaði mynd á nokkra og límdi á viðeigandi staði.

Björgvin byrjaði á því að finna miða með sól á. Hann þurfti þá að finna hvar sólin væri... Jú, hún er fyrir utan gluggann en á glugganum var miði með mynd af borði... Björgvin fór að eldhúsborðinu og fann þar miða með mynd af stígvéli. Efst á skóhrúgu frammi á gangi var miði á stígvéli með mynd af íspinna. Í frystinum var síðan miði með mynd af rúmi. Á rúminu hans Björgvins var miði með mynd af Íþróttaálfinum, en myndir af honum skreyta baðherbergishurðina okkar. Þar var miði með mynd af lest og á endanum fundum við páskaeggin falin í skúffunni þar sem við geymum lestina og lestarteinana.

Í morgun hafa þeir bræður síðan hámað í sig af miklum móð alls kyns góðgæti. Í kvöld og næstu daga verða tannburstarnir notaðir óspart...

Engin ummæli:

Skrifa ummæli