mánudagur, 7. september 2009

ágúst 2007 Archives

ágúst 9, 2007

Lífbeinslos, kviðslit eða ekki neitt?

Ákvað að skrifa nokkrar línur um bullið sem ég lenti í um daginn.
Þannig var mál með vexti að ég vaknaði sunnudaginn 29. júlí með smá verki í kviðnum. Ekki samdráttarverki eða neitt þvílíkt, bara smá sting 3 cm ofan við lífbein og upp að nafla.
Við Unnar skruppum í IKEA og á leiðinni hringdi ég í Gullý sem virtist vita um hvað ég var að tala og ráðlagði mér að kaupa meðgöngubelti eða teygjustrokk.
Við fórum í Baby Sam og keyptum meðgöngubelti þar... mér leið aðeins betur, en ekki það mikið að ég væri góð og rólfær.
Verkurinn ágerðist eftir því sem leið á daginn og ég (sem er nú ekki vön að kveinka mér) ákvað að næsta stopp væri læknavaktin. Þar hitti ég heimilislækni sem lét mig pissa í glas og sagði mér að ég væri hvorki með sykur í þvagi né þvagfærasýkingu. Hún þreifaði mig alla en gat ekki komið með nein svör, þannig að ég var send heim og sagt að hringja í ljósmóðurina sem er með mig í mæðravernd.
Á mánudagsmorgninum gerði ég það og þegar ég var búin að lýsa verkjunum fyrir D.Z. sagði hún að ég væri sennilega með lífbeinslos og bókaði tíma hjá lækni morguninn eftir.
Ég vissi sko ekkert hvað lífbeinslos er og leitaði því á netinu:
"Það sem er verst og hefur mestar afleiðingar af grindarverkjum er svokallað lífbeinslos. Þá verður los í lífbeininu (sennilega vegna hormónaáhrifa) og bilið sem það á að fylla upp í víkkar. Þetta veldur konunni miklum verkjum og í verstu tilfellunum geta konur ekki gengið nema með hækjum eða þurfa jafnvel á hjólastól að halda, einstaka konur þurfa að fara í aðgerð eftir fæðingu vegna þessa. Þetta er mjög sjaldgjæft [...]"

Viðurkenni fúslega að ég var ekki alveg í rónni þennan sólarhring sem leið á milli þessara frétta og skoðunarinnar hjá lækninum.
Ég hélt samt sjálf að þetta væri ekki það sem væri að mér, ég var þess fullviss að BH lægi bara eitthvað asnalega í grindinni og vildi helst fara í sónar til að staðfesta þann grun.
Þriðjudagsmorguninn kom og ég fór til læknis. Hún var voðalega indæl og sagði strax og hún sá mig að ég væri nú örugglega ekki með lífbeinslos... en hvað væri að mér vissi hún ekki.
Og í stað þess að senda mig í sónar, sendi hún mig í blóðprufu!
Ég fór strax til að fá niðurstöður sem fyrst og þær voru komnar í hús um kl. 15.
Ég var mjög lág í járni, en ekkert gat útskýrt þessa verki og ég var beðin um að koma niður á heilsugæslu til að sækja þvagprufubeiðni!
Jú jú, sjálfsagt mál sagði ég og minntist líka á það (í 3 skiptið) að læknirinn á læknavaktinni hefði stixað frá mér þvag á sunnudaginn og ekki fundið neitt.
Samt átti ég að skila þvagi.
Miðvikudagsmorguninn pissaði ég í dollu og skilaði á rannsóknarstofuna (gott að búa beint á móti lansanum maður!).
Og bæði á miðvikudaginn og fimmtudaginn leið mér aðeins betur en áður.
Fékk út úr þvagprufunni á föstudagsmorgninum.
Ekkert fannst í þvaginu. Ekki sykur, ekki sýking.
Hmmm... skrítið... alveg nákvæmlega það sama og læknavaktarlæknirinn sagði 5 dögum áður!
En niðurstaðan sem D.Z. komst að var sú að ég væri kvið- eða naflaslitin!
Vissi svo sem ekki meira um kviðslit en lífbeinslos svo ég leitaði mér smá upplýsinga:
"Kviðslit geta verið af ýmsum toga. Kviðslit getur verið í nára, kringum nafla og í skurðöri eftir fyrri aðgerð. Kviðslit er einnig útbungun (poki) á lífhimnu sem hefur þrengt sér gegnum veikleika á kviðveggnum. Stundum geta garnir og kviðarholsfita farið útí pokann og valdið óþægindum og eða verkjum, þetta ástand lagast oftast við það að leggjast útaf. Í þeim tilfellum sem það ekki lagast við það að leggjast útaf, getur þurft að gera bráða-aðgerð þar sem garnir og jafnvel líf sjúklingsins getur verið í hættu, það er þó undantekning."
Get ekki sagt að mér hafi liðið eitthvað betur með að vita þetta.
En nú skilst mér reyndar á þeim sem til þekkja, að erfitt sé að vera kviðslitin og taka ekki eftir því, svo ég reikna með að þetta sé ekki það sem er að mér.
Með öðrum orðum:
Ég veit ekki ennþá hvað var að mér í síðustu viku, en ég er alveg eins hress og ég á að mér að vera í dag. Finn ekkert til og það er eins og verkir liðinnar viku hafi aldrei átt sér stað.
Og ég er búin að skipta um heilsugæslustöð.

ágúst 20, 2007

Brjóstsviði

Ég hef aldrei fengið brjóstsviða á æfinni, en svo á föstudagskvöldið fann ég í fyrsta sinn fyrir þessum fjanda.
Ég borðaði pepperóní pizzu hjá mömmu og það var sennilega það sem olli þessu.
Borðaði líka óvenju seint og var glorsoltin svo ég borðaði frekar mikið, sem bætti sennilega ekki úr skák.
Svo þegar ég fór að lýsa þessu fyrir múttu, sagði hún mér að ég hefði sennilega verið með nábít, en eftir að hafa lesið mér til, held ég að um vélindabakflæði á meðgöngu hafi verið að ræða.
Lausnirnar á þessu eru:
Borða lítið
Borða snemma
Forðast kryddaðann mat

Á líka að forðast kaffi og tyggjó... as that will happen :-þ

ágúst 22, 2007

29v4d

Fórum í mæðraskoðun í Garðabæ í fyrsta sinn í morgun.
Erum hjá konu sem heitir Kristín og hún virkaði mjög vel á mig.
Krílið stækkar hratt og legbotninn var 32 cm, sem er reyndar í stærri kanntinum (!) miðað við 29 vikur. Ég hef samt engar áhyggjur þar sem sykurþolsprófið í síðustu viku kom mjög vel út.
Krílið lá í morgun með höfuðið niður (eins og oftast) og rassinn út í vinstri síðuna á mér.
Blóðþrýstingur var 130/85 sem er aðeins í hærri kantinum, en samt ekkert til að hafa áhyggjur af. Verð bara að passa mataræðið ennþá betur.
Skilst á Kristínu að ég fái að fara í vaxtarsónar (húrra!) til að sjá hvað barnið er stórt... sérstaklega þar sem við ætlum að eiga heima.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli