mánudagur, 7. september 2009

maí 2009 Archives

maí 2, 2009

Fyrstu kynni við yngri bróður

Þar sem brjóstagöfin er ekki að ganga upp þá er Þorgeir að byrja á pela.
Skiljanlega drekkur hann ekki mikið og því stalst Björgvin í einn pelann sem stóð á stofuborðinu og fór með hann inn í sitt herbergi og drakk pelann þar.
Hann hélt að mamma myndi skamma hann en Andrea sá enga ástæðu til þess (Þorgeir hættur að drekka í bili hvort sem var og óþarfi að sóa pelamjólkini).
Að sama skapi hefði ég varla skammað Björgvin þó svo hann hefði lamið með kubbunum sínum í hausinn á Þorgeiri, en til þess hefur ekki komið ennþá.
Ég myndi hins vegar tvímælalaust sýna Björgvini hversu vonsvikinn og sár ég yrði við svoleiðis framkomu.

maí 3, 2009

Fæðingarsaga

Klukkan 8.30 þann 30. Apríl 2009, fór ég upp á fæðingardeild í gangsetningu.
Þegar ég (Unnar var að fara með bílstól BH til ömmu Sillu sem passaði hann) mætti var bókstaflega "röð út úr dyrum" og þar sem ég var frekar kvíðin, bauðst ég til að koma aftur seinna.
Það var þegið með þökkum og mér sagt að mæta kl. 12.
Í hádeginu komum við aftur og yndisleg ljósa (Ester) tók við okkur og útskýrði gangsetninguna. Þar sem ég á keisara að baki, má ekki nota lyfjagjöf við gangsetningu og er því notuð blaðra (hljómar ágætlega ekki satt? Blöðrur eru skemmtilegar!).
Blaðra þessi er á endanum á löngu röri og því er ýtt eins nálægt belgnum og hægt er, volgu vatni sprautað í slönguna, blaðran þennst út og volá, leghálsinn opnast það mikið að hægt er að rjúfa belginn.
A.m.k. er það þeorían.
Því miður var ég ekki andlega tilbúin í fæðingu, enda búin að vera kvíðin fyrir henni síðan á 20. viku, þegar það rann upp fyrir mér að þetta barn þyrfti líka að komast út!
Um leið og einhverjir verkir byrjuðu, helltist yfir mig ógnar hræðsla og mér fannst ég vera að upplifa fæðinguna Björgvins Hrafnars upp á nýtt!
Ljósan reyndi að laga kvíðan með nálastungum, en allt kom fyrir ekki.
Óttinn hafði náð á mér of sterkum tökum og ég bað um keisara.
Ég var dregin á svari þar til eftir vaktaskiptin kl. 16, en þá komu til vinnu Karl fæðingalæknir og Guðrún Sigríður ljósmóðir. Voðalega þykir mér vænt um þau, því um leið og þau gengu inn spurði Karl hvort ég vildi fara í keisara og þegar ég sagði já, var svarið einfaldlega: nú, þá gerum við það!
Og ótrúlegt en satt, þá fannst mér í fyrsta skiptið þarna að ég hefði stjórn á aðstæðum!
Ég var undirbúin undir keisara, Unnar fékk skurðstofugalla og við slengdum okkur í aðgerð.
Í herbergi fullu af tækjum og grímuklæddu fólki fæddist drengurinn svo kl. 18.15 í góðri stemmingu og fékk pabbi að halda á honum strax.
Heilbrigður, fallegur og við fyrstu sýn talsvert líkur stóra bróður.
Hann er með dökkan lubba, vóg 4.465 gr. (rétt undir 18 mörkum) og er 52,5 cm.
Reyndar er hann strax búinn að afsanna að hann sé klón af stóra bróður, því eftir því sem mínúturnar líða, því meira líkist hann sjálfum sér, þó það sjáist greinilega að þeir séu bræður :-D

maí 8, 2009

Fyrsta baðið

Þorgeir fór í bað í fyrsta skiptið í kvöld.
Við byrjuðum á að koma Björgvini í rúmið og svo áttum við þrjú (foreldrar+Þorgeir) ljómandi góða stund saman á baðinu :-)
Þorgeir var ljós eins og venjulega, æmti hvorki né skræmti í baðinu, var rólegur á meðan Unnar þurrkaði honum og fannst ljómandi gott á meðan ég nuddaði hann.
Þessi fyrsta vika er búin að ganga eins og í sögu.
Unnar fékk verkefnalista og er búinn að vera að dunda sér við hann og ég hef bara verið að dúllast heima með Þorgeir á meðan Björgvin er á dagheimilinu.
Við erum farin að hlakka mikið til að fara út í gönguferðir og svoleiðis, mamman er ekki alveg týpan í að hanga heima í margar vikur ;-)

maí 17, 2009

Ótrúlegt

Það er alveg ótrúlegt hvað Þorgeir er rólegur. Hann er í alvöru rólegri en Björgvin var á hans aldri. Hann vekur Andreu á nóttunni með einhvers konar blöndu af hjali og röfli. Hann fær eina gjöf áður en við förum í háttinn, hann vill eina gjöf yfir nóttina og svo ekkert fyrr en seint næsta morgun, löngu eftir að BH er vaknaður.
Verkaskiptingin hefur verið þannig að Andrea sér um næturgjöf og sefur síðan út á meðan ég reyni að vaka yfir morgunhananum okkar (með mjög misjöfnun árangri).
Yfir daginn er Þorgeir stundum vakandi í 1 til 1 og hálfan tíma og á meðan er hann bara að horfa eða kreista það sem við komum fyrir í lófa hans. Þess fyrir utan sefur hann vært þrátt fyrir öll læti og ónæði frá stóra bróður.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli