mánudagur, 7. september 2009

febrúar 2008 Archives

febrúar 3, 2008

Pirruð við "brjóstagjafamafíuna"

Hér að neðan fer "röfl" sem ég ætlaði að birta á spjallsíðu sem ég tilheyri, en ég ákvað að pirringurinn þyrfti "öðruvísi" útrás en þar.
Tek fram að umræðan sem myndast á þessari spjallsíðu er nánast alltaf skemmtileg og uppbyggileg, nema þegar kemur að brjóstagjöf.
Mér finnst konum sem ekki geta eða vilja hafa börn sín á brjósti oft vera sýndir fordómar.
Já, ég segi geta eða vilja, því það verður líka að taka tillit til kvenna sem vilja ekki hafa barnið sitt á brjósti af einhverjum ástæðum.
Mér finnst sjálfri furðulegt að einhverjum detti svoleiðis vitleysa í hug, en "each to his own".
Nú kemur það sem á örugglega eftir að fara fyrir brjóstið á öllum:
Mér finnst ÆÐISLEGT að vera með barnið mitt á þurrmjólk.
Þetta var rosalega erfitt tímabil sem ég gekk í gegnum þegar mjólkin var að hverfa, mér fannst ég ómöguleg móðir og ómöguleg kona. Mér fannst ég algjörlega misheppnuð og sat og grét tímunum (já og dögunum) saman.
Ég veit að brjóstamjólk er það besta, en þurrmjólkin er það næst besta (mjólkurbankar eru einfaldlega ekki val, svo ég sleppi að minnast á þá).
En þrátt fyrir þetta finnst mér stórkostlegt að vera með pelabarn.
Við erum í "knús og kel" fjölskyldu svo hann er ekki að missa af neinni nánd, ég og Unnar erum bæði endalaust mikið með hann í fanginu og berum hann mikið, pelagjafir eru kósí-stund en ekki gerðar á neinum hlaupum og Unnar tekur 100% þátt í þeim og tengist því barninu ennþá betur en ella.
Björgvin Hrafnar er líka að stækka eins og hann á að gera, annað en þegar ég var með hann á brjósti.
Mér finnst líka frábært að geta farið á kaffihús, í skólann, fengið mér rauðvínsglas (eða tvö) og í búðir, án þess að hafa áhyggjur af því hvort BH sé að deyja úr hungri heima hjá pabba sínum!
Og það gerir mig ekki að slæmri móður þótt ég þurfi af og til að komast frá.
Það gerir mig að eðlilegri manneskju sem viðurkennir að ég þarf líka stundum að sinna sjálfri mér og engu öðru.
Ég er sjálf alin á nýmjólk sem þynnt var með sykurvatni og ég er ekki með eitt einasta ofnæmi (nema kíwí, og það tengist mjólk örugglega ekkert), er endalaust heilsuhraust og vaxtarlag mitt er engu að kenna nema eigin linkind!

Svo lokapunkturinn er þessi:
Í hvert sinn sem ég les "þurrmjólk er ofnæmisvaldandi" eða "þurrmjólk er offituvaldandi", finnst mér að verið sé að gagnrýna mig persónulega og mér sárnar, mest þó vegna þess að ég veit að ég er bara að gera það næst besta.
Ég reyndi allt sem ég gat til að gefa syni mínum brjóstamjólk, en það var bara ekki hægt.
Ég (og aðrar í sömu stöðu) þarf mikið frekar á stuðningi að halda, en að heyra stanslaust frá konum sem ég met mikils, hvað ég sé að gera hræðilegan hlut með að gefa honum þurrmjólk.
Og þær sem vilja ekki hafa börnin sín á brjósti, þurfa jákvæða, uppbyggilega umræðu og fræðslu, en ekki fordóma frá "brjóstamafíunni" (sem ég er sjálf í þótt ég geti ekki mjólkað).

febrúar 10, 2008

Bréf til Björgvins Hrafnars

Elsku sonur,
þar sem ég ligg andvaka og horfi á þig sofa, verður mér hugsað til framtíðarinnar.
Ég geri mér í hugarlund hvernig barn og unglingur þú verður og vona að fyrst og fremst verðir þú drengur góður, vinur vina þinna og heiðarlegur ungur maður.
Ég vona að þér finnist þú alltaf getað leitað til okkar pabba þíns með vandamál þín og að við verðum vinir þínir, ekki síður en foreldrar.
Ég vona að þú verðir einn þeirra sem standa með minnimáttar og hindra einelti.
Ég óska þess líka að þú verðir ónæmur fyrir þrýstingi og takir aldrei ákvarðanir sem eru ekki að fullu þínar eigin.
Ég ætla að gera mitt besta til að kenna þér að sýna öllum mannúð, bæði mönnum og dýrum, en þó vona ég að þú hafir nægilega sterk bein til að láta ekki aðra notfæra sér þessa manngæsku.
Ég vona að þú verðir sáttur við allt sem þú gerir í lífinu og standir undir þínum eigin væntingum.
En elsku Björgvin Hrafnar, fyrst og fremst vona ég að þú verðir hamingjusamur.
Alveg sama hvað þú kemur til með að taka þér fyrir hendur, þá verð ég til staðar, til að styðja við þig þegar þú þarft aðstoð og hvetja þig til að standa á eigin fótum og leita uppi drauma þína.
Því lofar þín mamma.

febrúar 12, 2008

Merkilegur afmælisdagur

Var sko ekki búin að fatta að Björgvin Hrafnar er fæddur sama dag og einn af mínum uppáhalds rithöfundum, Neil Gaiman.
Sá er fæddur 10. nóvember 1960.

Verkjalyf við hungri?

Í dag gaf ég syni mínum hitalækkandi stíl við hungri.
Sjokkerandi ekki satt?
Ég er ekki gengin af göflunum... held ég... en ég er augljóslega hræðilega vænisjúk á sumum sviðum!
Þannig er mál með vexti að við vorum í 3ja mánaða sprautunni í morgun og það var búið að segja mér að hann gæti orðið rellinn og/eða fengið hita eftir þessa sprautu. Ég er líka búin að vera ótrúlega tvístígandi með hvort ég eigi að láta hann fá þessa sprautu eða ekki, út af einhverfu-umræðunni, og er sennilega aðeins nojaðri þess vegna.
Hann tók sprautunni samt eins og hetja, það pirraði hann eiginlega mest að plásturinn (og stungusárið) voru akkúrat þar sem PULið leggst á lærið á honum, þannig að hann er búinn að vera ansi mikið berrassaður í dag.
Nú aftur að lyfjagjöfinni.
Eftir hádegið einhvern tíman fer hann að verða svolítið vælinn og ég legg hann niður til að athuga hvort hann vill sofna smá, hann sefur voðalega lítið á daginn, svo það hefði ekki verið neitt óeðlilegt að hann hefði ekki viljað sofna, en búmm... minn maður steinsofnar á augabragði.
"Frábært" hugsa ég "loksin get ég haldið áfram að gera skólaverkefnin mín"
En Eva var ekki lengi í Paradís og eftir svona 30 mínútur vaknar Björgvin gjörsamlega á öskrinu!
Ég hleyp inn til hans, tek hann upp og rugga og sussa og allt sem ég er vön að gera ef hann vaknar svona en ekkert dugar.
"Úff... þetta er örugglega út af sprautunum" hugsa ég og fer með hann fram á bað til að taka bleyjuna af.
Litli, rólegi strákurinn minn var eins og skrattinn sjálfur, gráturinn var orðinn að öskrum og ekkasogum, hann var næstum orðinn fjólublár í framan af áreynslu og mér féllust gjörsamlega hendur.
"Sturta!" var það eina sem ég gat hugsað, "það hlýtur að róa hann" (hann elskar að fara í sturtu).
Ríf okkur bæði úr fötunum og inn í surtuna... Jú jú, gráturinn hætti eins og skot og litla andlitið ljómaði í brosi.
Við dunduðum okkur í sturtunni í smá stund og svo þegar ég hélt að það væri óhætt fór ég með hann úr henni... en nei.
Um leið og ég lagði hann á skiptiborðið til að vefja handklæðinu utanum hann truflaðist sá stutti.
Öskur, ekki, fjólublár.
Allur pakkinn.
Mér féllust gjörsamlega hendur og það eina sem ég gat hugsað var "vá, hann er örugglega orðinn fárveikur af þessum sprautum" og náði í stílana sem ég keypti í apótekinu í morgun.
Einn stíll í rassinn og svo var bara ruggað og sussað og knúsað... en alltaf grét Björgvin jafn sárt.
Ég slysaðist svo fram í eldhús með hann og leit á klukkuna... 14:50.
14:50?
"Vá, er klukkan orðin svona margt? Hmm... "
Loksins rofaði til í hausnum á mér.
Það eru rúmlega 4 tímar síðan hann fékk að drekka síðast.
Ég hitaði einn pela í snarheitum og Björgvin þambaði eins og kálfur!
Gráturinn hætti með það sama og þegar litli karlinn var búinn úr pelanum (svona 5 sekúndum seinna) var hann bara eins og hann á að sér að vera, hress og kátur.
Ég íhugaði mikið á meðan hann var að drekka úr pelanum hvort hægt væri að ná stílum aftur "út" en hvarf mjög snögglega frá þeirri hugmynd... hann hlýtur að verða í lagi þótt hann fái eins og einn stíl í tilgangsleysi um æfina.
Stundum sér maður ekki skóginn fyrir trjánum!

febrúar 25, 2008

Fyrstu veikindin

Jæja, það hlaut að koma að því, Björgvin Hrafnar er orðinn veikur.
Hann var farinn að fá smá kvef í fyrradag, en svo í dag er hann búinn að vera vælinn og voðalega ólíkur sjálfum sér. Skapið lagaðist um kvöldið en svo tók þreytan völdin og allt varð ómögulegt aftur.
Nú er hann loksins sofnaður (aftur) og vonandi verður morgundagurinn betri.
Posted by Nornin on febrúar 25, 2008 11:27 EH

Engin ummæli:

Skrifa ummæli