mánudagur, 7. september 2009

Bréf frá mömmu til Björgvins Hrafnars

Elsku sonur,
þar sem ég ligg andvaka og horfi á þig sofa, verður mér hugsað til framtíðarinnar.
Ég geri mér í hugarlund hvernig barn og unglingur þú verður og vona að fyrst og fremst verðir þú drengur góður, vinur vina þinna og heiðarlegur ungur maður.
Ég vona að þér finnist þú alltaf getað leitað til okkar pabba þíns með vandamál þín og að við verðum vinir þínir, ekki síður en foreldrar.
Ég vona að þú verðir einn þeirra sem standa með minnimáttar og hindra einelti.
Ég óska þess líka að þú verðir ónæmur fyrir þrýstingi og takir aldrei ákvarðanir sem eru ekki að fullu þínar eigin.
Ég ætla að gera mitt besta til að kenna þér að sýna öllum mannúð, bæði mönnum og dýrum, en þó vona ég að þú hafir nægilega sterk bein til að láta ekki aðra notfæra sér þessa manngæsku.
Ég vona að þú verðir sáttur við allt sem þú gerir í lífinu og standir undir þínum eigin væntingum.
En elsku Björgvin Hrafnar, fyrst og fremst vona ég að þú verðir hamingjusamur.
Alveg sama hvað þú kemur til með að taka þér fyrir hendur, þá verð ég til staðar, til að styðja við þig þegar þú þarft aðstoð og hvetja þig til að standa á eigin fótum og leita uppi drauma þína.
Því lofar þín mamma.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli