mánudagur, 7. september 2009

Bréf til Þorgeirs Úlfars

Elsku Þorgeir Úlfar.

Þegar þú fæddist voru tilfinningar mínar blendnar.
Að sjálfsögðu varstu velkominn og ég vissi að ég myndi elska þig, en ég var hrædd um að það væri ekki nægileg ást til í heiminum fyrir ykkur báða og að ég myndi þurfa að elska Björgvin minna til að geta elskað þig meira.
En svo komstu í fang mér og ég fann hvernig hjartað mitt stækkaði og ástin jókst.
Nú liggur þú í vöggunni við hliðina á mér, brosir og baðar út handleggjunum og ég verð að segja þér að ég elska þig meira dag frá degi.
Litli munnurinn þinn sem allir segja að sé alveg eins og minn, litla nefið þitt sem amma Silla á skuldlaust og svo er augnsvipurinn blandaður frá mér og pabba þínum.
Þú ert líkur stóra bróður, en samt ekki.
Þið eigið margt sameiginlegt, en þú ert samt svo einstakur, með bláu augum og dökka hárið sem engin skilur hvaðan er komið :-)
Ég horfi á þig liggja hérna hjá mér og ég ímynda mér ykkur bræðurna í framtíðinni og eins og álfkonurnar í sögunum bið ég þess að þið hafið fengið marga góða kosti í vöggugjöf.
Ég óska þess að þú standir ávallt við ákvarðanir þínar, orð og gerðir í sátt við sjálfan þig.
Ég óska þess að þú verðir góður við menn og málleysingja en látir aldrei vaða yfir þig.
Ég óska þess að þú verðir víðsýnn og hafir áhuga á að kynnast veröldinni og íbúum hennar í allri sinni fegurð og margbreytileika.
Ég óska þess að þú virðir alltaf skoðanir annarra, jafnvel þegar þú ert ósammála þeim.
Ég ætla að reyna að kenna þér að horfa gagnrýnum augum á það sem þér er sagt, án þess þó að þú glatir hæfileikanum til að undrast og njóta þeirra töfra sem lífið býður upp á.
En umfram allt óska ég þess að þú verðir hamingjusamur elsku sonur.
Mundu að við erum alltaf til staðar fyrir þig, sama hvað kemur upp á geturðu alltaf leitað til okkar pabba þíns. Við erum hér til að styðja þig, hvetja þig og ýta þér áfram þegar sækir á brattann.

Því heitir þín mamma.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli