sunnudagur, 24. janúar 2010

Veikindi og uppistand

Ah, eins og oft áður blogga ég ekki nema eitthvað hafi gerst og það hefur sko ýmislegt gerst.

Fyrst af öllu fór Þorgeir að standa upp sjálfur í gærkvöldi (22. janúar) og var pabbi hans eina vitnið þar sem mamman hafði brugðið sér af bæ að kaupa bleyjur.
En hann endurtók leikinn nokkuð oft í dag (23) og eru því bæði mamma, pabbi, afi Steinar og amma Silla búin að sjá hann standa :)

Seinna þennan sama dag gerðust ekki eins skemmtilegir atburðir þó.
Strákarnir eru báðir búnir að vera lasnir, með einhvera bansetta veirusýkingu og Þorgeir fékk meira að segja snert af lungnabólgu með henni, en Björgvin slapp.

Þar til í kvöld.
Um klukkan 19 var ég að skoða á honum fótinn því hann kvartaði svo mikið undan kláða og sá að hann var með risastóra rauða hellu á fætinum neðan við hné.
Unnar var í snarhasti sendur með barnið á læknavaktina þar sem honum var sagt að þetta væru ofnæmisviðbrögð við "einhverju" og gefið Arieus til að slá á einkennin.

Björgvin fór svo að sofa um kl. 22 en vaknaði aftur kl. 23 og klæjaði svo mikið að hann gat ekki sofið.
Þá hafði ofnæmið svo sannarlega náð að breiða úr sér og var hann með stórar hellur á lærum, rasskinnum, olnbogum og upphandleggjum, svo og kálfanum vinstra megin, en kálfinn hægra meginn (þar sem allt þetta hófst) var næstum roðalaus.

Ég fékk hálfgert áfall, reif hann úr öllum fötunum og kældi útbrotin með þvottapoka á meðan ég hringdi í Unnar sem var að spila með strákunum.
Hann kom heim og ég þaut með barnið á barnaspítala Hringsins.

Eftir talsverða bið þar fóru hellurnar að lýsast og þegar læknir var loks laus til að líta á barnið, var lítið eftir nema rauðar útlínur þar sem stuttu áður hafði verið eldrauð og þrútin hella.

En þrátt fyrir það gat læknirinn útilokað fæðu- og dýraofnæmi og sagði að þetta væri sennilega vegna þeirrar veirusýkingar sem hefur hrellt þá bræður undanfarin mánuð.

Björgvin fékk stera og á að halda áfram að taka ofnæmislyfið, þetta ætti að vera alveg horfið á morgun!


Engin ummæli:

Skrifa ummæli