miðvikudagur, 12. maí 2010

2,5 ára skoðun

Mánudaginn 10. maí varð Björvin Hrafnar tveggja og hálfs árs.
Það er ekki í frásögur færandi, nema fyrir þá staðreynd að samkvæmt "skipulaginu" á hann þá að fara í svokallaða 2,5 ára skoðun.
Sú skoðun er í rauninni þroskamat þar sem litlu afstyrmin eiga að geta gert hinar ýmsu hundakúnstir eins og kubbað 8 hæða turn, parað saman eins liti, endurtekið setningar, staðið á öðrum fæti, stigið hæll-tá, staðið á tám, vita hvað þau heita og hvað þau eru gömul og svona ýmislegt sem BH getur og getur ekki (BTW, Brigance þroskamatið er fáránlega mikið leyndó og ég gat hvergi fundið það á netinu).
Við komumst líka að því að þetta próf er framkvæmt frá 2,5 ára og alveg þar til barnið er 2 ára 11 mánaða og 15 daga... svo því seinna sem maður kemur, því nær þriggja ára sem krakkinn er, því betur stendur það sig á þessu bévítans prófi... afhverju heitir þetta ekki bara 3ja ára skoðun?

Nú jæja, Björgvin var ekki alveg til í að láta spyrja sig spjörunum úr, svo eftir að Jóna hjúkka (sem ég kann ekkert of vel við, henti henni út þegar BH var nýfæddur og við í veseni með brjóstagjöfina, en það er nú önnur saga) spurði hann hvað hann héti og minn svaraði "Böbin" og hún skildi hann ekki og spurði hann í þrígang hvað hann héti og fór svo að spyrja hvað hann væri gamall, þá kom þvermóðskan upp í mínum og hann fór.
Já, tveggja og hálfs árs guttinn minn stóð upp og gekk í burtu :)

Eftir sat ég (Unnar fór með honum) og reyndi að fá það upp úr þessari blessuðu konu hvað í ósköpunum við værum að gera þarna og hvort við þyrftum eitthvað að taka þetta próf.
Nei, maður þarf víst ekki að taka það, það er enginn sem þvingar mann til að taka það, hann fær ekki mínus í kladdann og ef maður hefur engar áhyggjur af að barnið sitt sé ekki fullkomið, þá er þetta það tilgangslausasta í heiminum... þau eru tveggja og hálfs, afhverju ætti mér ekki að vera sama hvort hann skorar 78 eða 89 stig á þessu prófi?
Krakkinn kann að púsla, hoppa, syngja, dansa, klappa, leira, gráta, sparka í bolta, leika með bíla, renna sér, róla, leika í sandkassanum, hlæja, borða, vinka, kyssa, lita og leika sér.
Þarf tveggja og hálfs árs gamall strákur að kunna eitthvað fleira?

Ég tók þá andfélagslegu ákvörðun að BH og ÞÚ fara ekki í þessa 2,5 ára skoðun og ekki í 4 ára skoðunina heldur.
Maður getur bara metið þau sjálfur því hér er 4-5 ára prófið og hér er voða fínt þroskaskema.

1 ummæli: