föstudagur, 21. maí 2010

Mömmumont

Ég verð alltaf jafn fullkomlega agndofa yfir því hvað synir mínir eru klárir :)

Ég fylgist með þeim læra nýja hluti eins og að ganga eða bara að stinga snuddunni við hliðina á sér í barnastólnum til að geyma hana og ég fyllist aðdáun á móður náttúru og hversu fullkomin við erum í einfaldleika okkar.

Ég umgengst börn aldrei að neinu ráði fyrr en ég eignaðist mín eigin. Í fyrsta lagi er ég einkabarn og svo var ég of stór eða of lítil þegar frænkurnar fæddust til að hafa vit á að taka eftir. Linda Rós fæddist þegar ég var 6 ára, ég var sjálfhverf 14 ára þegar Kristín Eva fæddist, Lára og Sólveig voru orðnar svo stórar þegar við eignuðumst þær og þegar Þorfinna Ellen kom í heiminn var ég farin burt í framhaldsskóla.

Svo hvert einasta smáatriði sem Þorgeir og Björgvin læra er stórviðburður í mínum augum. Ég horfi á þá læra að drekka úr glasi, borða með gaffli, sparka í bolta og mér líður eins og enginn, enginn í veröldinni hafi áður verið svona skarpur að læra þetta sjálfur, sem ég veit að er auðvitað vitleysa því við erum búin að kenna þeim þetta með því að kunna þetta sjálf.

Börn læra mest af því að apa upp eftir öðrum og sé ég það best á Þorgeiri. Hann var eldsnöggur (um 11 mánaða) að læra á tröppurnar heima og skríður núna upp og niður þær án nokkurrar aðstoðar og ég er ekkert stressuð yfir að hann hrynji niður þær... afhverju ekki? Jú, hann lærði af bróður sínum.

Björgvin sá að Þorgeir gat ekki gengið niður þær og hann, 2ja ára skrímslið, fór á fjórar fætur og sýndi litla bróa hvernig átti að skríða aftur á bak niður stigann! Segið svo að þessi börn hugsi ekki rökrétt :D
Eftir nokkur skipti þar sem var nærri illa farið, tókst Þorgeiri að fara einn niður og eftir það hef ég ekki haft neinar áhyggjur af þessu.

Eins klifrar hann upp og niður úr sófanum og rúminu okkar og það er vegna þess að hann sér hvernig Björgvin gerir þetta og apar svo bar eftir. Verst að hann apar alla vitleysuna upp eftir honum líka :p
Þetta endaði reyndar með ósköpum fyrr í kvöld því hann datt niður úr hægindastólnum og fékk blóðnasir... og svo vildi ekki betur til en svo að Unnar var að lyfta Björgvini nokkrum mínútum seinna og sprikli litli mjakaði sér er höndum föður síns og datt í gólfið og fékk líka blóðnasir!

Við stóðum því með sitthvorn orminn í fanginu inn á baði og reyndum að stöðva blóðnasirnar, ekki skemmtilegur endi á deginum það.

1 ummæli:

  1. Krúttlegar vangaveltur hjá þér.. ég er alltaf í þessum hugleiðingum líka um hversu ótrúlega magnað það er að fá að fylgjast með þroska lítils einstaklings alveg frá grunni. Þegar maður sér litlu smáatriðin sem eru kallaðar framfarir ræður maður sér ekki af gleði :) og þar sem þið þekkið mig nú getið þið ímyndað ykkur hversu oft falla nokkur tár með :)
    Linda frænka :*

    SvaraEyða