mánudagur, 27. desember 2010

Jólin, jólin, afstaðin...

Jæja, þá eru jólin afstaðin að mestu og ég er eiginlega bara fegin.
Þrátt fyrir að hafa ætlað að hafa þau stresslaus og róleg fyrir strákana fundu þeir samt að eitthvað var öðruvísi en það er vanalega og svo þegar pakkaflóðið hófst á Þorláksmessu, sá Björgvin að eitthvað mikið stóð til.

Að kvöldi Þorláksmessu skrapp Unnar út í búð og ég var ein heima með strákana á meðan.
Þorgeir var orðinn þreyttur og ég bað Björgvin um að vera góðan frammi á meðan ég færi með bróður hans inn í rúm. Stóri minn sagði bara já já og sat sem fastast fyrir framan sjónvarpið.

Við Þorgeir fórum inn í rúm og lágum þar í smá stund... allt í einu heyri ég kallað:
"Mamma! Mamma sjáppa mér! Sjáppa mér opna pakkana!" (sjáppa=hjálpa)

Ég þyrlaðist fram úr rúminu og stökk inn í herbergi til Björgvins þar sem hann sat, með risastórt bros á andlitinu, umvafinn umbúðapappír og jólagjöfum!
Hann hafði komist í pappakassa sem innihélt gjafirnar að norðan og hafði lent í vandræðum með pakka í glanspappír sem neitaði að rifna eins og hinir!
Ef það hefði ekki verið fyrir þennan pakka hefði hann sennilega opnað hverja einustu gjöf, en í staðinn náði hann bara að opna þrjár :)

Þeim var snyrtilega pakkað inn aftur og settir undir jólatréð þegar Björgvin var sofnaður.

Mikilvæg lexía 1:
Ekki hafa pakkana þar sem börn ná til!

Aðfangadagur var rólegur og leið eins og best verður á kosið, hangið á náttfötunum fram eftir öllu, glápt á vídeó, farið á rúntinn og svo byrjað að elda í rólegheitum.
Þorgeir fékk jólabað, en Björgvin þvertók fyrir að far í bað svo hann fékk bara léttan kattarþvott rétt fyrir matinn :)
Lambafillé, kantarellusveppasósa, sætmús, ferskt salat, grænar, gular og rauðkál. Þetta var jólamaturinn okkar í ár og er ég bara ekki frá því að þetta verði líka á næsta ári... mínus þetta gula, rauða og græna... svo mikill var afgangurinn af því!

Svo var komið að því... augnablikið sem allir biðu eftir; pakkarnir.
Björgvin, Þorgeir og ég sátum á gólfinu og lásum á pakkana. Ég ætlaði að hafa þetta rosa kósí, láta Björgvin rétta pakkana til viðtakanda þeirra og svo bara opna í rólegheitum, öll saman.
Já líklegt!

Björgvin hafði varla tíma til að skoða hvað kom úr pökkunum, svo mikill var æsingurinn í að fá næsta pakka. Hann sat við hliðina á mér, reif upp pappírinn, tók dótið og lagði það frá sér og svo horfði hann á mig með spennuglampa í augunum, "mamma, pakka minn!" og vildi fá næsta pakka í hendurnar!

Eftir 4 pakka á mann (monstertrucks frá Rögnvaldi, legóbíll frá ömmu Stínu, plastdýr frá Jósef Degi og latabæjarmynd frá Erni Heiðari) sagði mamman stopp!
Hingað og ekki lengra.

Ég tók afganginn af pökkunum, setti þá til hliðar og sagði þeim að það yrðu ekki fleiri pakkar opnaðir í bili. Þeir tóku því bara mjög vel og fóru að leika sér með risaeðlurnar, afríkudýrin og bílana :)
Við hin (Þórhildur og Stína voru hjá okkur) gátum þá farið að opna pakkana okkar í friði og ró :)

Það sem eftir lifði kvölds voru þeir eins og hugur manns. Þorgeir fór svo að sofa um 21.30 og Björgvin náði sér niður með okkur foreldrunum um 11 leytið.

Mikilvæg lexía 2:
Ekki láta börni fá alla pakkana í einu!

Jóladagur var jafnvel meira afslappandi en aðfangadagur, við Þorgeir vöknuðum klukkan 9.30 og Björgvin og Unnar skriðu fram úr klukkan 10.30. Við lékum okkur, gláptum á sjónvarpið, borðuðum súkkulaði og laufabrauð til klukkan 15 þegar Unnar fór og sótti ömmu sína til að fara í kaffiboð til Stínu.
Kaffiboðið fór reyndar fyrir lítið, Þorgeir sofnaði á leiðinni þangað og Björgvin var ekki á því að yfirgefa mömmu sína, enda orðinn dauðþreyttur.
Við mæðginin skildum Unnar því eftir í kaffiboðinu og fórum upp í Grafarvog til ömmu og afa, því við vorum boðin í jólamat þar.

Boðið tókst frábærlega, Björgvin borðaði slatta af hangikjöti og laufabrauði á meðan Þorgeir borðaði kartöflur og laufabrauð, hann vildi sko ekki sjá hangikjötið og grænu baunirnar voru eins og eitur í hans augum :p

Strákarnir léku og voru bara til fyrirmyndar í (næstum) alla staði.
Við fórum heim á milli 9 og 10 en það var full seint fyrir þá og sofnaði Þorgeir því ekki fyrr en um 22.30 og Björgvin um 23.

Mikilvæg lexía 3:
Reyna að fá fólk til að halda jólaveislur á milli 12 og 18 en ekki eftir klukkan sex!

Annar í jólum kom með einu jólboðinu í viðbót og afmæli Unnars.
Við fórum í fjölskylduboðið til ömmu Stínu og hittum alla fjölskylduna nema Óla, Hjördísi og börn, einhver veikindi í gangi þar.

Aftur var farið seint að sofa og í morgun sváfum við öll snyrtilega yfir okkur og skriðum ekki fram úr fyrr en Þorgeir vaknaði klukkan 8.41!
Rukum öll fram úr og út, varla komin í fötin og ógreidd.
Það voru erfið skrefin inn á Bæjarból í morgun, litlir rassar voru ekki tilbúnir að setjast aftur á leikskólabekkinn. Við foreldrarnir vorum ekki heldur tilbúin fyrir vinnudaginn, en svona er þetta, jólin enda.

Mikilvæg lexía 4:
Vera í fríi á þriðja í jólum til að vefja ofan af hátíðarvitleysunni!

fimmtudagur, 16. desember 2010

mánudagur, 13. desember 2010

Þriggja ára afmælið

Afmælið hans Björgvins var haldið laugardaginn 13. nóvember heima í Löngumýrinni.
Við ákváðum að bjóða bara nánustu ættingjum og vinum enda varla pláss fyrir fleiri. Amma Silla tók að sér að baka og gerði bestu "heimsins bestu" sem undirrituð hefur smakkað :) Mamman gerið svo brauðrétt og snittur sem runnu vel ofan í gestina.

Afmælisbarnið var loksins búinn að uppgötva að pakkar eru skemmtilegir og það er spennandi að opna þá, eitthvað sem hefur hingað til ekki verið alveg skýrt í hans huga :)

Meðal þess sem hann fékk er traktor, Oliver og félagar á DVD, kíkir og "monster truck" matchbox bílar en þessir hlutir hafa hvað mest slegið í gegn þótt hér sé leikið með allt. Kuldaskórnir frá ömmu og afa eruð auðvitað notaðir daglega og traktorinn frá langömmu er í miklu uppáhaldi.

Mamma og pabbi gáfu honum sundugga og reynist hann vel í laugardags-sundferðum fjölskyldunnar.

miðvikudagur, 8. desember 2010

Orð og orð

Enn fleiri setningar koma frá Þorgeiri um þessar mundir.

,,Ekki taka" og ,,ekki sæng" eru þær sem við munum núna.

Þorgeir er líka farinn að taka meira á bróður sínum og jafnvel eiga frumkvæði að "deilum" (lesist slagsmálum ungbarna) þeirra í millum. Björgvin virðist ekki vera sáttur enda gerist það æ oftar að það er hann en ekki Þorgeir Úlfar sem grætur eftir "átökin". Svo virðist sem Þorgeir sé kominn með ansi gott sjálfstraust og er greinilega byrjaður að hrekkja bróður sinn viljandi.
Hann tekur leikföng sem Björgvin hefur skilið eftir og hleypur með þau í burtu, Björgvin er sko ekki sáttur við það, hleypur á eftir og vill fá "sitt dót" til baka. Þorgeir stendur hinsvegar fastur á sínu og afhendir þau ekki auðveldlega. Undan þessu grætur greyið Björgvin oft. Þrátt fyrir öll þessi læti þá þykir honum Þorgeiri á sama tíma óendanlega vænt um hann Björgvin enda endist hrekkurinn ekki lengi ef Björgvin grætur sárt. Þá snýr Þorgeir við og afhendir það sem hann tók, og það stundum án hvatningar frá okkur.

laugardagur, 4. desember 2010

Setningar og orð

Þorgeir er farinn að tala svo mikið. Hann blaðrar endalaust við sjálfan sig, en við skiljum nú minnst af því, en í dag sagði hann við Unnar "sjáðu bílinn keyra". Fyrsta þriggja orða setningin! Og hann sem byrjaði bara á tveggja orða setningum í síðustu viku (sjáðu tistis, sjáðu baba).
Það er svo ofsalega krúttlegt hvernig hann segir "sjáðu". Þetta er svona ssssjáu, sssjáu með rosalegum spurnartóni í röddinni, því þetta er náttúrulega allt svo merkilegt :)
Ég reyndi að ná þessu á vídeó um daginn, kemur í ljós þegar ég nenni að uploda vídeóinu hvernig til tókst.

Björgvin talar líka alltaf meira og meira. Í dag vorum við á jólamarkaði í Lyngbrekku fyrir utan Borgarnes og Björgvin var að tala um Gullu frænku Sigríðar Ástu og sagði trekk í trekk Dulla :)
Hann var alveg viss um að hún réði öllu þarna því hún gaf honum piparköku þegar við komum :)

Jóla-þetta og jóla-hitt er líka mjög mikið notað, en hann veit ekki alltaf um hvað hann er að tala. Jólasveinar eru t.d. stundum jólatré og orðið yfir þetta er "Lóla". Lólate, lólaseinn, njókall.

föstudagur, 3. desember 2010

Barn í sporðdrekamerkinu

Barn fætt í sporðdrekamerkinu er ákaft og sýnir mikla snerpu og oft leiðir það til að önnur börn misskilja sporðdrekann. Þessi börn eru ekki að reyna vera hávær, þau hafa bara ákafa þörf fyrir að vita allt. Þau geta verið helst til áköf þegar þau eru að nálgast skólafélaga sína, en þau eru allavega hreinskilin.
Þegar barn í sporðdreka hefur tekið ákvörðun um að gera eitthvað, þá er ekkert sem fær það ofan af því. Að reyna að fá sporðdreka til að skipta um skoðun er eins og að reyna að hreyfa kletta og fjöll. Sporðdrekinn er úrræðagóður og á auðvelt með að vinna úr staðreyndum.
Þetta er sá einstaklingur sem þú leitar til þegar þú ert að athuga með hvað er að gerast í bænum eða ætlar að finna besta verðið á hjólum. Hugur barns í sporðdreka heillast af vísindum og rannsóknum svo þú skalt ekki draga úr ást þeirra á efnafræðitilraunum og áhöldum. Reyndu bara að halda barninu utan dyra þegar það er að gera efnafræðitilraunir sínar heima við.
Barn í sporðdreka er leyndardómsfullt og oft er erfitt að segja til um hvernig því líður og hvað það er að hugsa. Þetta veldur því einnig að félagarnir vita ekki hvar þeir hafa sporðdrekann og verða óöruggir í kringum hann.
Barn í sporðdreka á það til að verða afbrýðisamt út í aðra og oft getur skapast stríðsástand yfir leikföngum og á leikvellinum. Þeir sem gefa sér tíma til að kynnast barni í sporðdreka og hleypir honum að sér, eignast góðan og traustan vin um alla framtíð.

Barn í nautsmerkinu

Barn í nautsmerkinu er í góðu jafnvægi og einbeitt og tekur sér tíma til að gera hlutina og flýtir sér hægt. Þetta er barn sem skilur og metur ferlið sem slíkt.
Barn í nautsmerkinu hefur ánægju af því að hugsa um hluti og sýnir staðfestu í nálgun þess. Raunsæi og að hlutirnir séu raunhæfir er stór hluti af þeirra ákvarðanatöku. Þegar þú útskýrir hluti fyrir barni í nautsmerki þá er alls ekki nóg að segja “þetta er bara svona”.
Þetta barn hefur þörf fyrir að skilja af hverju hlutirnir eru eins og þeir eru og hver lógíkin er á bak við reglurnar sem því eru settar, annars getur það ekki fylgt reglunum. Þetta hljómar sem mikil vinna en leiðir af sér vel aðlagað barn í góðu jafnvægi.
Annað sem ber að hafa í huga, er þörf barns í þessu merki fyrir snertingu og ástúð. Þú getur aldrei knúsað þetta barn of mikið. Þetta barn er einnig mikið fyrir fjölskyldulíf og er góð húshjálp. Oft er þetta litla aðsoðarmanneskjan þín og vill gera allt eins og mamma og pabbi.
Barn í nautsmerkinu er sælkeri og þú getur búist við að það eyði miklum tíma í eldhúsinu við að elda og borða.
Nautið er þrjóskt að eðlisfari og mjög erfitt er að fá það til að skipta um skoðun ef það hefur fengið einhverja flugu í kollinn.
Annað ríkt einkenni er þolinmæði og þrautseigja sem gerir barn í nautsmerki að góðum námsmanni og sigurvegara.