Jæja, þá eru jólin afstaðin að mestu og ég er eiginlega bara fegin.
Þrátt fyrir að hafa ætlað að hafa þau stresslaus og róleg fyrir strákana fundu þeir samt að eitthvað var öðruvísi en það er vanalega og svo þegar pakkaflóðið hófst á Þorláksmessu, sá Björgvin að eitthvað mikið stóð til.
Að kvöldi Þorláksmessu skrapp Unnar út í búð og ég var ein heima með strákana á meðan.
Þorgeir var orðinn þreyttur og ég bað Björgvin um að vera góðan frammi á meðan ég færi með bróður hans inn í rúm. Stóri minn sagði bara já já og sat sem fastast fyrir framan sjónvarpið.
Við Þorgeir fórum inn í rúm og lágum þar í smá stund... allt í einu heyri ég kallað:
"Mamma! Mamma sjáppa mér! Sjáppa mér opna pakkana!" (sjáppa=hjálpa)
Ég þyrlaðist fram úr rúminu og stökk inn í herbergi til Björgvins þar sem hann sat, með risastórt bros á andlitinu, umvafinn umbúðapappír og jólagjöfum!
Hann hafði komist í pappakassa sem innihélt gjafirnar að norðan og hafði lent í vandræðum með pakka í glanspappír sem neitaði að rifna eins og hinir!
Ef það hefði ekki verið fyrir þennan pakka hefði hann sennilega opnað hverja einustu gjöf, en í staðinn náði hann bara að opna þrjár :)
Þeim var snyrtilega pakkað inn aftur og settir undir jólatréð þegar Björgvin var sofnaður.
Mikilvæg lexía 1:
Ekki hafa pakkana þar sem börn ná til!
Aðfangadagur var rólegur og leið eins og best verður á kosið, hangið á náttfötunum fram eftir öllu, glápt á vídeó, farið á rúntinn og svo byrjað að elda í rólegheitum.
Þorgeir fékk jólabað, en Björgvin þvertók fyrir að far í bað svo hann fékk bara léttan kattarþvott rétt fyrir matinn :)
Lambafillé, kantarellusveppasósa, sætmús, ferskt salat, grænar, gular og rauðkál. Þetta var jólamaturinn okkar í ár og er ég bara ekki frá því að þetta verði líka á næsta ári... mínus þetta gula, rauða og græna... svo mikill var afgangurinn af því!
Svo var komið að því... augnablikið sem allir biðu eftir; pakkarnir.
Björgvin, Þorgeir og ég sátum á gólfinu og lásum á pakkana. Ég ætlaði að hafa þetta rosa kósí, láta Björgvin rétta pakkana til viðtakanda þeirra og svo bara opna í rólegheitum, öll saman.
Já líklegt!
Björgvin hafði varla tíma til að skoða hvað kom úr pökkunum, svo mikill var æsingurinn í að fá næsta pakka. Hann sat við hliðina á mér, reif upp pappírinn, tók dótið og lagði það frá sér og svo horfði hann á mig með spennuglampa í augunum, "mamma, pakka minn!" og vildi fá næsta pakka í hendurnar!
Eftir 4 pakka á mann (monstertrucks frá Rögnvaldi, legóbíll frá ömmu Stínu, plastdýr frá Jósef Degi og latabæjarmynd frá Erni Heiðari) sagði mamman stopp!
Hingað og ekki lengra.
Ég tók afganginn af pökkunum, setti þá til hliðar og sagði þeim að það yrðu ekki fleiri pakkar opnaðir í bili. Þeir tóku því bara mjög vel og fóru að leika sér með risaeðlurnar, afríkudýrin og bílana :)
Við hin (Þórhildur og Stína voru hjá okkur) gátum þá farið að opna pakkana okkar í friði og ró :)
Það sem eftir lifði kvölds voru þeir eins og hugur manns. Þorgeir fór svo að sofa um 21.30 og Björgvin náði sér niður með okkur foreldrunum um 11 leytið.
Mikilvæg lexía 2:
Ekki láta börni fá alla pakkana í einu!
Jóladagur var jafnvel meira afslappandi en aðfangadagur, við Þorgeir vöknuðum klukkan 9.30 og Björgvin og Unnar skriðu fram úr klukkan 10.30. Við lékum okkur, gláptum á sjónvarpið, borðuðum súkkulaði og laufabrauð til klukkan 15 þegar Unnar fór og sótti ömmu sína til að fara í kaffiboð til Stínu.
Kaffiboðið fór reyndar fyrir lítið, Þorgeir sofnaði á leiðinni þangað og Björgvin var ekki á því að yfirgefa mömmu sína, enda orðinn dauðþreyttur.
Við mæðginin skildum Unnar því eftir í kaffiboðinu og fórum upp í Grafarvog til ömmu og afa, því við vorum boðin í jólamat þar.
Boðið tókst frábærlega, Björgvin borðaði slatta af hangikjöti og laufabrauði á meðan Þorgeir borðaði kartöflur og laufabrauð, hann vildi sko ekki sjá hangikjötið og grænu baunirnar voru eins og eitur í hans augum :p
Strákarnir léku og voru bara til fyrirmyndar í (næstum) alla staði.
Við fórum heim á milli 9 og 10 en það var full seint fyrir þá og sofnaði Þorgeir því ekki fyrr en um 22.30 og Björgvin um 23.
Mikilvæg lexía 3:
Reyna að fá fólk til að halda jólaveislur á milli 12 og 18 en ekki eftir klukkan sex!
Annar í jólum kom með einu jólboðinu í viðbót og afmæli Unnars.
Við fórum í fjölskylduboðið til ömmu Stínu og hittum alla fjölskylduna nema Óla, Hjördísi og börn, einhver veikindi í gangi þar.
Aftur var farið seint að sofa og í morgun sváfum við öll snyrtilega yfir okkur og skriðum ekki fram úr fyrr en Þorgeir vaknaði klukkan 8.41!
Rukum öll fram úr og út, varla komin í fötin og ógreidd.
Það voru erfið skrefin inn á Bæjarból í morgun, litlir rassar voru ekki tilbúnir að setjast aftur á leikskólabekkinn. Við foreldrarnir vorum ekki heldur tilbúin fyrir vinnudaginn, en svona er þetta, jólin enda.
Mikilvæg lexía 4:
Vera í fríi á þriðja í jólum til að vefja ofan af hátíðarvitleysunni!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli