mánudagur, 27. desember 2010

Jólin, jólin, afstaðin...

Jæja, þá eru jólin afstaðin að mestu og ég er eiginlega bara fegin.
Þrátt fyrir að hafa ætlað að hafa þau stresslaus og róleg fyrir strákana fundu þeir samt að eitthvað var öðruvísi en það er vanalega og svo þegar pakkaflóðið hófst á Þorláksmessu, sá Björgvin að eitthvað mikið stóð til.

Að kvöldi Þorláksmessu skrapp Unnar út í búð og ég var ein heima með strákana á meðan.
Þorgeir var orðinn þreyttur og ég bað Björgvin um að vera góðan frammi á meðan ég færi með bróður hans inn í rúm. Stóri minn sagði bara já já og sat sem fastast fyrir framan sjónvarpið.

Við Þorgeir fórum inn í rúm og lágum þar í smá stund... allt í einu heyri ég kallað:
"Mamma! Mamma sjáppa mér! Sjáppa mér opna pakkana!" (sjáppa=hjálpa)

Ég þyrlaðist fram úr rúminu og stökk inn í herbergi til Björgvins þar sem hann sat, með risastórt bros á andlitinu, umvafinn umbúðapappír og jólagjöfum!
Hann hafði komist í pappakassa sem innihélt gjafirnar að norðan og hafði lent í vandræðum með pakka í glanspappír sem neitaði að rifna eins og hinir!
Ef það hefði ekki verið fyrir þennan pakka hefði hann sennilega opnað hverja einustu gjöf, en í staðinn náði hann bara að opna þrjár :)

Þeim var snyrtilega pakkað inn aftur og settir undir jólatréð þegar Björgvin var sofnaður.

Mikilvæg lexía 1:
Ekki hafa pakkana þar sem börn ná til!

Aðfangadagur var rólegur og leið eins og best verður á kosið, hangið á náttfötunum fram eftir öllu, glápt á vídeó, farið á rúntinn og svo byrjað að elda í rólegheitum.
Þorgeir fékk jólabað, en Björgvin þvertók fyrir að far í bað svo hann fékk bara léttan kattarþvott rétt fyrir matinn :)
Lambafillé, kantarellusveppasósa, sætmús, ferskt salat, grænar, gular og rauðkál. Þetta var jólamaturinn okkar í ár og er ég bara ekki frá því að þetta verði líka á næsta ári... mínus þetta gula, rauða og græna... svo mikill var afgangurinn af því!

Svo var komið að því... augnablikið sem allir biðu eftir; pakkarnir.
Björgvin, Þorgeir og ég sátum á gólfinu og lásum á pakkana. Ég ætlaði að hafa þetta rosa kósí, láta Björgvin rétta pakkana til viðtakanda þeirra og svo bara opna í rólegheitum, öll saman.
Já líklegt!

Björgvin hafði varla tíma til að skoða hvað kom úr pökkunum, svo mikill var æsingurinn í að fá næsta pakka. Hann sat við hliðina á mér, reif upp pappírinn, tók dótið og lagði það frá sér og svo horfði hann á mig með spennuglampa í augunum, "mamma, pakka minn!" og vildi fá næsta pakka í hendurnar!

Eftir 4 pakka á mann (monstertrucks frá Rögnvaldi, legóbíll frá ömmu Stínu, plastdýr frá Jósef Degi og latabæjarmynd frá Erni Heiðari) sagði mamman stopp!
Hingað og ekki lengra.

Ég tók afganginn af pökkunum, setti þá til hliðar og sagði þeim að það yrðu ekki fleiri pakkar opnaðir í bili. Þeir tóku því bara mjög vel og fóru að leika sér með risaeðlurnar, afríkudýrin og bílana :)
Við hin (Þórhildur og Stína voru hjá okkur) gátum þá farið að opna pakkana okkar í friði og ró :)

Það sem eftir lifði kvölds voru þeir eins og hugur manns. Þorgeir fór svo að sofa um 21.30 og Björgvin náði sér niður með okkur foreldrunum um 11 leytið.

Mikilvæg lexía 2:
Ekki láta börni fá alla pakkana í einu!

Jóladagur var jafnvel meira afslappandi en aðfangadagur, við Þorgeir vöknuðum klukkan 9.30 og Björgvin og Unnar skriðu fram úr klukkan 10.30. Við lékum okkur, gláptum á sjónvarpið, borðuðum súkkulaði og laufabrauð til klukkan 15 þegar Unnar fór og sótti ömmu sína til að fara í kaffiboð til Stínu.
Kaffiboðið fór reyndar fyrir lítið, Þorgeir sofnaði á leiðinni þangað og Björgvin var ekki á því að yfirgefa mömmu sína, enda orðinn dauðþreyttur.
Við mæðginin skildum Unnar því eftir í kaffiboðinu og fórum upp í Grafarvog til ömmu og afa, því við vorum boðin í jólamat þar.

Boðið tókst frábærlega, Björgvin borðaði slatta af hangikjöti og laufabrauði á meðan Þorgeir borðaði kartöflur og laufabrauð, hann vildi sko ekki sjá hangikjötið og grænu baunirnar voru eins og eitur í hans augum :p

Strákarnir léku og voru bara til fyrirmyndar í (næstum) alla staði.
Við fórum heim á milli 9 og 10 en það var full seint fyrir þá og sofnaði Þorgeir því ekki fyrr en um 22.30 og Björgvin um 23.

Mikilvæg lexía 3:
Reyna að fá fólk til að halda jólaveislur á milli 12 og 18 en ekki eftir klukkan sex!

Annar í jólum kom með einu jólboðinu í viðbót og afmæli Unnars.
Við fórum í fjölskylduboðið til ömmu Stínu og hittum alla fjölskylduna nema Óla, Hjördísi og börn, einhver veikindi í gangi þar.

Aftur var farið seint að sofa og í morgun sváfum við öll snyrtilega yfir okkur og skriðum ekki fram úr fyrr en Þorgeir vaknaði klukkan 8.41!
Rukum öll fram úr og út, varla komin í fötin og ógreidd.
Það voru erfið skrefin inn á Bæjarból í morgun, litlir rassar voru ekki tilbúnir að setjast aftur á leikskólabekkinn. Við foreldrarnir vorum ekki heldur tilbúin fyrir vinnudaginn, en svona er þetta, jólin enda.

Mikilvæg lexía 4:
Vera í fríi á þriðja í jólum til að vefja ofan af hátíðarvitleysunni!

fimmtudagur, 16. desember 2010

mánudagur, 13. desember 2010

Þriggja ára afmælið

Afmælið hans Björgvins var haldið laugardaginn 13. nóvember heima í Löngumýrinni.
Við ákváðum að bjóða bara nánustu ættingjum og vinum enda varla pláss fyrir fleiri. Amma Silla tók að sér að baka og gerði bestu "heimsins bestu" sem undirrituð hefur smakkað :) Mamman gerið svo brauðrétt og snittur sem runnu vel ofan í gestina.

Afmælisbarnið var loksins búinn að uppgötva að pakkar eru skemmtilegir og það er spennandi að opna þá, eitthvað sem hefur hingað til ekki verið alveg skýrt í hans huga :)

Meðal þess sem hann fékk er traktor, Oliver og félagar á DVD, kíkir og "monster truck" matchbox bílar en þessir hlutir hafa hvað mest slegið í gegn þótt hér sé leikið með allt. Kuldaskórnir frá ömmu og afa eruð auðvitað notaðir daglega og traktorinn frá langömmu er í miklu uppáhaldi.

Mamma og pabbi gáfu honum sundugga og reynist hann vel í laugardags-sundferðum fjölskyldunnar.

miðvikudagur, 8. desember 2010

Orð og orð

Enn fleiri setningar koma frá Þorgeiri um þessar mundir.

,,Ekki taka" og ,,ekki sæng" eru þær sem við munum núna.

Þorgeir er líka farinn að taka meira á bróður sínum og jafnvel eiga frumkvæði að "deilum" (lesist slagsmálum ungbarna) þeirra í millum. Björgvin virðist ekki vera sáttur enda gerist það æ oftar að það er hann en ekki Þorgeir Úlfar sem grætur eftir "átökin". Svo virðist sem Þorgeir sé kominn með ansi gott sjálfstraust og er greinilega byrjaður að hrekkja bróður sinn viljandi.
Hann tekur leikföng sem Björgvin hefur skilið eftir og hleypur með þau í burtu, Björgvin er sko ekki sáttur við það, hleypur á eftir og vill fá "sitt dót" til baka. Þorgeir stendur hinsvegar fastur á sínu og afhendir þau ekki auðveldlega. Undan þessu grætur greyið Björgvin oft. Þrátt fyrir öll þessi læti þá þykir honum Þorgeiri á sama tíma óendanlega vænt um hann Björgvin enda endist hrekkurinn ekki lengi ef Björgvin grætur sárt. Þá snýr Þorgeir við og afhendir það sem hann tók, og það stundum án hvatningar frá okkur.

laugardagur, 4. desember 2010

Setningar og orð

Þorgeir er farinn að tala svo mikið. Hann blaðrar endalaust við sjálfan sig, en við skiljum nú minnst af því, en í dag sagði hann við Unnar "sjáðu bílinn keyra". Fyrsta þriggja orða setningin! Og hann sem byrjaði bara á tveggja orða setningum í síðustu viku (sjáðu tistis, sjáðu baba).
Það er svo ofsalega krúttlegt hvernig hann segir "sjáðu". Þetta er svona ssssjáu, sssjáu með rosalegum spurnartóni í röddinni, því þetta er náttúrulega allt svo merkilegt :)
Ég reyndi að ná þessu á vídeó um daginn, kemur í ljós þegar ég nenni að uploda vídeóinu hvernig til tókst.

Björgvin talar líka alltaf meira og meira. Í dag vorum við á jólamarkaði í Lyngbrekku fyrir utan Borgarnes og Björgvin var að tala um Gullu frænku Sigríðar Ástu og sagði trekk í trekk Dulla :)
Hann var alveg viss um að hún réði öllu þarna því hún gaf honum piparköku þegar við komum :)

Jóla-þetta og jóla-hitt er líka mjög mikið notað, en hann veit ekki alltaf um hvað hann er að tala. Jólasveinar eru t.d. stundum jólatré og orðið yfir þetta er "Lóla". Lólate, lólaseinn, njókall.

föstudagur, 3. desember 2010

Barn í sporðdrekamerkinu

Barn fætt í sporðdrekamerkinu er ákaft og sýnir mikla snerpu og oft leiðir það til að önnur börn misskilja sporðdrekann. Þessi börn eru ekki að reyna vera hávær, þau hafa bara ákafa þörf fyrir að vita allt. Þau geta verið helst til áköf þegar þau eru að nálgast skólafélaga sína, en þau eru allavega hreinskilin.
Þegar barn í sporðdreka hefur tekið ákvörðun um að gera eitthvað, þá er ekkert sem fær það ofan af því. Að reyna að fá sporðdreka til að skipta um skoðun er eins og að reyna að hreyfa kletta og fjöll. Sporðdrekinn er úrræðagóður og á auðvelt með að vinna úr staðreyndum.
Þetta er sá einstaklingur sem þú leitar til þegar þú ert að athuga með hvað er að gerast í bænum eða ætlar að finna besta verðið á hjólum. Hugur barns í sporðdreka heillast af vísindum og rannsóknum svo þú skalt ekki draga úr ást þeirra á efnafræðitilraunum og áhöldum. Reyndu bara að halda barninu utan dyra þegar það er að gera efnafræðitilraunir sínar heima við.
Barn í sporðdreka er leyndardómsfullt og oft er erfitt að segja til um hvernig því líður og hvað það er að hugsa. Þetta veldur því einnig að félagarnir vita ekki hvar þeir hafa sporðdrekann og verða óöruggir í kringum hann.
Barn í sporðdreka á það til að verða afbrýðisamt út í aðra og oft getur skapast stríðsástand yfir leikföngum og á leikvellinum. Þeir sem gefa sér tíma til að kynnast barni í sporðdreka og hleypir honum að sér, eignast góðan og traustan vin um alla framtíð.

Barn í nautsmerkinu

Barn í nautsmerkinu er í góðu jafnvægi og einbeitt og tekur sér tíma til að gera hlutina og flýtir sér hægt. Þetta er barn sem skilur og metur ferlið sem slíkt.
Barn í nautsmerkinu hefur ánægju af því að hugsa um hluti og sýnir staðfestu í nálgun þess. Raunsæi og að hlutirnir séu raunhæfir er stór hluti af þeirra ákvarðanatöku. Þegar þú útskýrir hluti fyrir barni í nautsmerki þá er alls ekki nóg að segja “þetta er bara svona”.
Þetta barn hefur þörf fyrir að skilja af hverju hlutirnir eru eins og þeir eru og hver lógíkin er á bak við reglurnar sem því eru settar, annars getur það ekki fylgt reglunum. Þetta hljómar sem mikil vinna en leiðir af sér vel aðlagað barn í góðu jafnvægi.
Annað sem ber að hafa í huga, er þörf barns í þessu merki fyrir snertingu og ástúð. Þú getur aldrei knúsað þetta barn of mikið. Þetta barn er einnig mikið fyrir fjölskyldulíf og er góð húshjálp. Oft er þetta litla aðsoðarmanneskjan þín og vill gera allt eins og mamma og pabbi.
Barn í nautsmerkinu er sælkeri og þú getur búist við að það eyði miklum tíma í eldhúsinu við að elda og borða.
Nautið er þrjóskt að eðlisfari og mjög erfitt er að fá það til að skipta um skoðun ef það hefur fengið einhverja flugu í kollinn.
Annað ríkt einkenni er þolinmæði og þrautseigja sem gerir barn í nautsmerki að góðum námsmanni og sigurvegara.

fimmtudagur, 21. október 2010

Sentimetrar

Við hæðarmældum Björgvin um daginn og hann reyndist vera 96 sentimetrar á hæð og amma Silla skellti honum á vigt og hann var 15 kíló (Þorgeir var 14 á sömu vigt).
Þetta stækkar víst ;)

En hann er orðinn svo duglegur að tala, ég á bara stundum ekki til orð yfir hversu hratt orðin týnast inn hjá honum :)
From 2010-07-18

mánudagur, 18. október 2010

Björgvin að syngja


Björgvin að syngja
Originally uploaded by Nornin
Við vorum í Húsdýragarðinum og Björgvin vildi endilega syngja dulur, rauju, dædnn og blá fyrir okkur :)

fimmtudagur, 7. október 2010

Jæja... uppfærsla á nokkurra mánaða fresti

... eins gott að ég er með svona barnabók líka :)

Síðustu viku eru strákarnir búnir að vera með augnsýkingu sem er að ganga, fyrst Þorgeir og nú Björgvin.

Þorgeir var heima með mér í gær og lærði meðal annars hvar nefið á honum er, það er svo mikil snilld þegar þeir læra eitthvað svona nýtt, mér finnst alltaf eins og þeir hljóti að vera klárustu börn í heimi :D

Þorgeir er líka duglegur að reyna að tjá sig og nýjasta hjá honum er að benda á allt sem honum finnst merkilegt og segja "sjáu".
Hann segir líka "nei" við öllu og maður verður að lesa í svipbrigðin og tóninn til að sjá hvort hann meinar já eða nei. Mjög algengt er að matartíminn sé svona:

Mamma: Þorgeir viltu brauð?
Þorgeir: Nei (hart og ákveðið).
Mamma: Viltu skyr?
Þorgeir: Neeeeiiii (langt og glaðlegt).

Ergo: barnið vill skyr.
Sem hann vill reyndar alltaf. Hann gæti lifað á KEA vanilluskyri ef ég leyfði honum það!

Hann er svo glaðlegur og sáttur alltaf hreint (nema rétt á meðan Björgvin er að stríða honum) og hann lætur manni líða svo vel, alltaf að faðma alla og á alltaf til bros handa fólki :)
Þeir eru svo skemmtilegir saman þegar við förum til dæmis í Krónuna. Þá fá þeir litlar innkaupakerrur og aka um alla búð, hlaupandi á eftir hvor öðrum eða tínandi vörur sem þá "langar í" ofan í kerrurnar sínar :)

Björgvin er líka ofsalega duglegur alltaf hreint.
Hann elskar bækur, púsl, bíla og niðursuðudósir (reyndar eru þær uppáhalds leikföng þeirra beggja). Og svo er hann eins og alltaf, sjúkur í dýr.
Hann er latur við að gera sig skiljanlegan og treystir á að við "finnum út úr því" hvað hann er að reyna að segja, en sumt segir hann svo skýrt og rétt að maður fyllist stolti :)
Eitt af því er "ég eska sig" og í hvert sinn sem ég segi við hann "ég elska þig" fæ ég knús og "ég eska sig" til baka.
Hvers fleira getur móðir óskað sér?
Ég fór næstum að skæla :p

Á leikskólanum byrjar dagurinn hans núna alltaf á að hann púslar smá og fær sér svo stundum morgunmat. Hann er matgrannur, sem finnst þó ekki á honum því hann er orðin ein 17 kg. (í fötum og stígvélum á vigt í Húsdýragarðinum) og er sterkur strákur.
En ef það er fiskur, kjötfarsbollur, hakk eða pasta í matinn þá getur hann næstum borðað endalaust. Botnlaus hít. Þeir báðir!

Ég ætlaði svo að muna eftir einhverju sniðugu sem hefur gerst, en get ekki fyrir mitt litla líf munað lengra aftur en síðustu 2-3 daga, svo ég blogga bara aftur fljótlega.

sunnudagur, 18. júlí 2010

Koppa kroppur

Björgvin er búinn að vera að æfa sig í að pissa í koppinn og hefur það gengið mjög vel. Hann er reyndar alltaf berrassaður hérna heima og vill varla fara í föt þó við séum að fara út (gott að stripplast) en í dag tók hann næsta skref og kúkaði í koppinn :)
Við misstum okkur að sjálfsögðu úr gleði, enda ekki daglega sem maður sér fram á helmings niðurskurð á skítugum bleyjum :p

Nú er bara að halda áfram á þessari frábæru braut og kannski ýta Þorgeiri í áttina að honum líka :D

laugardagur, 19. júní 2010

Júní hálfnaður...

... úff hvað tíminn líður hratt!

Strákarnir stækka og stækka og stækka. Og læra líka helling um leið :)
Þorgeir gengur eins og hann hafi aldrei gert annað, byltunum fækkar jafnt og þétt og eru dagleg föll nú teljandi á fingrum annarar handar. Hann er samt alltaf marinn og blár, en það stafar oft frekar af meðferð bróður hans á honum en nokkru öðru!

Björgvin er reyndar allur að koma til. Hann er næstum hættur að berja bróður sinn með öllu lauslegu, Þorgeir þarf núna virkilega að vinna sér það inn að vera laminn :p
Og sú nýbreytni hófst í þessari viku, að ef BH lemur hann, fær ÞÚ knús eftir á.
Jább, Björgvin lemur bróður sinn og faðmar hann svo, hann er að sýna að hann getur sýnt samkend og væntumþykju :)

Við erum búin að vera dugleg að gera hluti eins og fara í húsdýragarðinn og Björgvin er farinn að biðja um það. "Mamma... ú-dí-dæinn?" segir hann oft þegar ég er búin að sækja hann á leikskólann.
Hann er líka sjúkur í að fara í IKEA. Ef hann sér stóra skiltið fyrir utan, verður hann alveg galinn ef hann fær ekki að fara inn. Mér leiðist nú svo sem ekki í IKEA (nema síður sé) þannig að við förum þangað 1-2x í viku til að leika í barnadeildinni (rennibraut, bangsar, tjöld) og fá okkur ís (á 75 krónur, talsvert ódýrara en annarsstaðar!)
Þorgeiri finnst ísinn ekkert sérstakur, hann vill bara brauðið :)
Það sama á við um pylsur, Björgvin elskar þær og borðar bara pylsuna, en Þorgeir borðar brauðið. Góð og hentug skipti það :)

Svefnmálin eru ennþá erfið á þessum bænum.
Þorgeir er reyndar bara lagður inn í rúm eftir pelann sinn og fer að sofa, en Björgvin er alveg eins og mamma sín, þarf að bylta sér 100x, fá pela (stundum tvo), vera í sínu rúmi, koma í pabbaholu... þetta er minnst klukkutíma prósess á hverju einasta kvöldi :(
En ég er svona líka... bylti mér og sný í 40 mínútur að meðaltali áður en ég sofna, svo þetta erfist kannski bara.
Guðum sé lof að Þorgeir er eins og pabbi hans :)

föstudagur, 21. maí 2010

Mömmumont

Ég verð alltaf jafn fullkomlega agndofa yfir því hvað synir mínir eru klárir :)

Ég fylgist með þeim læra nýja hluti eins og að ganga eða bara að stinga snuddunni við hliðina á sér í barnastólnum til að geyma hana og ég fyllist aðdáun á móður náttúru og hversu fullkomin við erum í einfaldleika okkar.

Ég umgengst börn aldrei að neinu ráði fyrr en ég eignaðist mín eigin. Í fyrsta lagi er ég einkabarn og svo var ég of stór eða of lítil þegar frænkurnar fæddust til að hafa vit á að taka eftir. Linda Rós fæddist þegar ég var 6 ára, ég var sjálfhverf 14 ára þegar Kristín Eva fæddist, Lára og Sólveig voru orðnar svo stórar þegar við eignuðumst þær og þegar Þorfinna Ellen kom í heiminn var ég farin burt í framhaldsskóla.

Svo hvert einasta smáatriði sem Þorgeir og Björgvin læra er stórviðburður í mínum augum. Ég horfi á þá læra að drekka úr glasi, borða með gaffli, sparka í bolta og mér líður eins og enginn, enginn í veröldinni hafi áður verið svona skarpur að læra þetta sjálfur, sem ég veit að er auðvitað vitleysa því við erum búin að kenna þeim þetta með því að kunna þetta sjálf.

Börn læra mest af því að apa upp eftir öðrum og sé ég það best á Þorgeiri. Hann var eldsnöggur (um 11 mánaða) að læra á tröppurnar heima og skríður núna upp og niður þær án nokkurrar aðstoðar og ég er ekkert stressuð yfir að hann hrynji niður þær... afhverju ekki? Jú, hann lærði af bróður sínum.

Björgvin sá að Þorgeir gat ekki gengið niður þær og hann, 2ja ára skrímslið, fór á fjórar fætur og sýndi litla bróa hvernig átti að skríða aftur á bak niður stigann! Segið svo að þessi börn hugsi ekki rökrétt :D
Eftir nokkur skipti þar sem var nærri illa farið, tókst Þorgeiri að fara einn niður og eftir það hef ég ekki haft neinar áhyggjur af þessu.

Eins klifrar hann upp og niður úr sófanum og rúminu okkar og það er vegna þess að hann sér hvernig Björgvin gerir þetta og apar svo bar eftir. Verst að hann apar alla vitleysuna upp eftir honum líka :p
Þetta endaði reyndar með ósköpum fyrr í kvöld því hann datt niður úr hægindastólnum og fékk blóðnasir... og svo vildi ekki betur til en svo að Unnar var að lyfta Björgvini nokkrum mínútum seinna og sprikli litli mjakaði sér er höndum föður síns og datt í gólfið og fékk líka blóðnasir!

Við stóðum því með sitthvorn orminn í fanginu inn á baði og reyndum að stöðva blóðnasirnar, ekki skemmtilegur endi á deginum það.

miðvikudagur, 12. maí 2010

2,5 ára skoðun

Mánudaginn 10. maí varð Björvin Hrafnar tveggja og hálfs árs.
Það er ekki í frásögur færandi, nema fyrir þá staðreynd að samkvæmt "skipulaginu" á hann þá að fara í svokallaða 2,5 ára skoðun.
Sú skoðun er í rauninni þroskamat þar sem litlu afstyrmin eiga að geta gert hinar ýmsu hundakúnstir eins og kubbað 8 hæða turn, parað saman eins liti, endurtekið setningar, staðið á öðrum fæti, stigið hæll-tá, staðið á tám, vita hvað þau heita og hvað þau eru gömul og svona ýmislegt sem BH getur og getur ekki (BTW, Brigance þroskamatið er fáránlega mikið leyndó og ég gat hvergi fundið það á netinu).
Við komumst líka að því að þetta próf er framkvæmt frá 2,5 ára og alveg þar til barnið er 2 ára 11 mánaða og 15 daga... svo því seinna sem maður kemur, því nær þriggja ára sem krakkinn er, því betur stendur það sig á þessu bévítans prófi... afhverju heitir þetta ekki bara 3ja ára skoðun?

Nú jæja, Björgvin var ekki alveg til í að láta spyrja sig spjörunum úr, svo eftir að Jóna hjúkka (sem ég kann ekkert of vel við, henti henni út þegar BH var nýfæddur og við í veseni með brjóstagjöfina, en það er nú önnur saga) spurði hann hvað hann héti og minn svaraði "Böbin" og hún skildi hann ekki og spurði hann í þrígang hvað hann héti og fór svo að spyrja hvað hann væri gamall, þá kom þvermóðskan upp í mínum og hann fór.
Já, tveggja og hálfs árs guttinn minn stóð upp og gekk í burtu :)

Eftir sat ég (Unnar fór með honum) og reyndi að fá það upp úr þessari blessuðu konu hvað í ósköpunum við værum að gera þarna og hvort við þyrftum eitthvað að taka þetta próf.
Nei, maður þarf víst ekki að taka það, það er enginn sem þvingar mann til að taka það, hann fær ekki mínus í kladdann og ef maður hefur engar áhyggjur af að barnið sitt sé ekki fullkomið, þá er þetta það tilgangslausasta í heiminum... þau eru tveggja og hálfs, afhverju ætti mér ekki að vera sama hvort hann skorar 78 eða 89 stig á þessu prófi?
Krakkinn kann að púsla, hoppa, syngja, dansa, klappa, leira, gráta, sparka í bolta, leika með bíla, renna sér, róla, leika í sandkassanum, hlæja, borða, vinka, kyssa, lita og leika sér.
Þarf tveggja og hálfs árs gamall strákur að kunna eitthvað fleira?

Ég tók þá andfélagslegu ákvörðun að BH og ÞÚ fara ekki í þessa 2,5 ára skoðun og ekki í 4 ára skoðunina heldur.
Maður getur bara metið þau sjálfur því hér er 4-5 ára prófið og hér er voða fínt þroskaskema.

föstudagur, 7. maí 2010

12 mánaða skoðun

Þorgeir var að koma úr 12 mánaða skoðun sem pabbi hans fór með hann í, fyrsta skoðunin sem Unnar fer í merkilegt nokk.

En Þorgeir er orðinn 12,4 kg og 78 cm :)
Hann er aðeins yfir kúrvu í þyngd og aðeins undir kúrvu í lengd, en hann á sennilega eftir að taka vaxtarkipp og jafna þetta út :)

laugardagur, 1. maí 2010

Fyrsta árið

Úff púff... heilt ár liðið síðan Þorgeir Úlfar kom í heiminn... mér finnst svo rosalega stutt síðan að ég er eiginlega ekki búin að fatta þetta enn þá... samt átti hann afmæli í gær :)

Breytingarnar á samskiptum þeirra bræðra eru kannski það besta við hversu hratt tíminn líður, Björgvin er næstum hættur að berja bróður sinn og Þorgeir er orðinn svo stór að hann getur tekið á móti ef eitthvað er.
Annars finnst mér tíminn líða alltof hratt, þeir verða farnir að heiman áður en ég get sagt "Vaðlaheiðarvegavinnuverkfærageymsluskúr" 10 sinnum.

Þorgeir er að byrja að ganga, hann tekur 3-4 skref en svo er eins og hann missi kjarkinn og beygir sig varlega niður og sest, sem segir mér að hann geti alveg gengið meira, því hann dettur ekkert, þetta er voðalega varfærnislegt allt saman :)
Hann byrjar á þessu í maí og gengur inn í sumarið :)

Hann kann líka að gera hvað hann er stór (búinn að kunna það síðan í mars) og lærði að klappa alveg sjálfur fyrir nokkrum dögum (ætli það hafi ekki verið í kringum sumardaginn fyrsta). Svo er hann alltaf að verða betri og betri í að drekka úr fernu :)
Reyndar erum við rosa mikið með plastbrúsa frá Nuby ef við erum á ferðinni og tökum þá bara vatn með okkur... enda drekka þeir báðir mikið vatn og hafa alltaf gert. Þetta var sko meðvituð ákvörðun hjá okkur að halda að þeim vatni, því ég þekki börn sem finnst vatn "vont". Hvernig er hægt að finnast bragðlaus drykkur vondur?
Maður spyr sig.

En allt hefur þetta fyrsta ár gengið slysalaust fyrir sig.
Við erum ekki ennþá búin að þurfa að fara með hann á slysó (7, 9, 13), hann hefur sloppið við alvarleg veikindi (bara þetta "astma-rugl") og er hraustur, kátur og klár.

Ég þakka reglulega fyrir að eiga svona frábæra, hrausta og klára stráka. Það er ekkert í lífinu jafn æðislegt :D

miðvikudagur, 14. apríl 2010

Veikindi Þorgeirs

Ég er nú ekki vön að kvarta mikið yfir veikindum strákana, enda hefur Björgvini varla orðið misdægurt frá fæðingu en það er nú annað með Þorgeir.

Í byrjun desember fékk hann kvef sem þróaðist svo út í barkabólgu og á endanum var talið að hann væri með lungnabólgu þótt hann væri aldrei sendur í myndatöku.
Hann var settur á sýklalyfjakúr og astmapúst sem okkur fundust ekkert virka.

Hann kláraði lyfin og var í 3 vikur á pústinu án þess að nokkuð breyttist.

Hann var aftur settur á 10 daga sýklalyfjakúr og 6 vikna pústkúr fyrir jólin og svo í janúar fór hann á sýklalyf í þriðja skiptið á 6 vikum :(

Hann var á astmapústinu í 11 vikur samtals þar til ég gafst upp og fór með hann til astma og ofnæmislæknis (Ari Víðir) sem setti hann á steralyfið singulair við astmanum.

6 vikum seinna var hann ekki betri fyrir 5 aura og aftur fórum við til Ara.

Hann var tekin af Singulair og settur á mjólkurlaustfæði því nú er líklegasta greiningin sú að hann sé með mjólkuróþol... líklegasta. Ekki 100% sú rétta... bara sú líklegasta.

Eru læknavísindin virkilega ekki komin lengra en þetta?

Eftir 3-4 vikur eigum við svo að koma aftur til Ara og þá verður úr því skorið hvort um mjólkuróþol sé að ræða eða ekki.

Frábært.

mánudagur, 29. mars 2010

Þessi datt í sjóinn...

Á laugardaginn fórum við í pikknikk niður í Nauthólsvík vopnuð skóflum og pollabuxum, albúin í það að moka nokkrar holur og byggja örfáa kastala.
En það fer ekki alltaf allt eins og áætlað er þegar smábörn eru með í för.

Þegar við komum í víkina var Þorgeir uppgefinn og ákvað að leggja sig í stað þess að leika en Björgvin tók beint strik út í sjó.
Þar sem hann var mjög vel búinn var góðfúslegt leyfi veitt til vaðs, en eftir um 10 mínútur í flæðarmálinu tók hann upp á því að vaða lengra út en áður.

Það endaði með að hann steig á misfellu í sandinum og datt... í sjóinn.
Reyndar lenti hann ekki allur ofan í, heldur fór hann á hliðina og var því votur hægra megin á líkamanum.

Mamman reif hann úr hverri spjör og vafði inn í flíspeysuna sína á meðan pabbinn hjóp út í bíl að sækja þurr föt og kuldagalla.
Ormurinn var í skyndi klæddur upp á nýtt og fékk svo saltkex (uppáhaldið) og hélt áfram að leika sér :)

--------
Seinni partinn var farið með Bæjarbóli á slökkvistöðina í Hafnarfirði þar sem bílarnir frá Sigurjóni voru skoðaðir í bak og fyrir.
Þau fengu að fara inn í bæði sjúkrabíl og brunabíl og minn hljóp hringinn og fékk að fara 2 ferðir í gegnum brunabílinn :)

Þorgeir var með í för og einn lítill af deildinni Björgvins benti mömmu sinni á þá bræður með þessum orðum:
"Mamma, sjáðu, þarna er Björgvin og þarna er lítill Björgvin"
:)
Hversu sætt er það?
--------
Okkur dauðlangar að fara að skoða eldgosið á Fimmvörðuhálsi, en það er víst ekki gáfulegt að fara með litla orma þarna uppeftir.

miðvikudagur, 3. mars 2010

10 mánaða skoðun

Þorgeir litli var í ungbarnaeftirliti í dag og kom rosalega vel út :)
Hann var 11,140 kg og 76,5 cm.
Hann er 0,5 cm frá sinni kúrvu í hæðinni, en heldur þyngdinni vel...litla tröllið okkar :)
Hann er farinn að vinka bless, sýnir hvað hann er stór og honum langar voða mikið að klappa, en það er ekki ennþá alveg komið.
Hann tínir líka upp smádót, gengur með vagninum sínum og bablar mamamamama stanslaust :D

Björgvin er farinn að vera betri við bróður sinn og vill oft hafa hann með í leik. Þorgeir getur það nú ekki alltaf, en það er voða sætt að sjá þá skríða á eftir hvor öðrum hér um öll gólf :)

Björgvin talar og talar og talar og talar... hann þagnar varla barnið nema rétt til að anda inn og fleiri orð bætast í orðaforðan nánast daglega.
Koppurinn/klósettið fá hins vegar enga athygli og er mamman orðin úrkula vonar um að barnið hætti nokkurn tíman á bleyju!
Æi, vonandi verður hann hættur með hana fyrir þriggja ára aldurinn :p

miðvikudagur, 10. febrúar 2010

Tennur, tennur, tennur

Þorgeir er kominn með 4 tennur í neðri góm og ein að koma hægra megin uppi.
Samt ekki framtönn, heldur hliðarframtönn... það verður gaman að sjá hann með vampírubros :D

Neðri tennurnar komu 29. janúar en sú í efri góm er bara að troða sér í gegn núna :)

föstudagur, 5. febrúar 2010

Nólós

Björgvin Hrafnar er svo eftirtektarsamur lítill gutti.
Hann sér dýr og fugla löngu á undan öllum öðrum og tekur eftir trjánum og laufblöðunum (eða skorti á þeim) og spáir mikið í grjót og gras.

Um daginn fórum við með þá á rúntinn að kvöldi til og erum upp á Hellisheiði þegar heyrist allt í einu í mínum:
"Mamma... ha edda?" og bendir út um gluggann.
Þá voru tindrandi græn norðurljós dansandi um himininn og hafði litli náttúrufræðingurinn séð þau og var að spá í hvað í ósköpunum þetta væri :)

Ég sagði honum að sjálfsögðu að þetta væru norðurljós og hann endurtók "nólós" og smjattaði á því heillengi :)

Nú segir hann djarna, dúll og nólós þegar hann er að benda upp í himinninn á kvöldinn... ætli hann sé upprennandi stjarneðlisfræðingur?

Þorgeir er farinn að standa upp við allt og reynir að færa sig á milli staða og hann er líka farinn að borða "fullorðinsmat" og fékk hakk og spaghettí um daginn... sem hann borðaði að sjálfsögðu með bestu lyst :)

sunnudagur, 24. janúar 2010

Veikindi og uppistand

Ah, eins og oft áður blogga ég ekki nema eitthvað hafi gerst og það hefur sko ýmislegt gerst.

Fyrst af öllu fór Þorgeir að standa upp sjálfur í gærkvöldi (22. janúar) og var pabbi hans eina vitnið þar sem mamman hafði brugðið sér af bæ að kaupa bleyjur.
En hann endurtók leikinn nokkuð oft í dag (23) og eru því bæði mamma, pabbi, afi Steinar og amma Silla búin að sjá hann standa :)

Seinna þennan sama dag gerðust ekki eins skemmtilegir atburðir þó.
Strákarnir eru báðir búnir að vera lasnir, með einhvera bansetta veirusýkingu og Þorgeir fékk meira að segja snert af lungnabólgu með henni, en Björgvin slapp.

Þar til í kvöld.
Um klukkan 19 var ég að skoða á honum fótinn því hann kvartaði svo mikið undan kláða og sá að hann var með risastóra rauða hellu á fætinum neðan við hné.
Unnar var í snarhasti sendur með barnið á læknavaktina þar sem honum var sagt að þetta væru ofnæmisviðbrögð við "einhverju" og gefið Arieus til að slá á einkennin.

Björgvin fór svo að sofa um kl. 22 en vaknaði aftur kl. 23 og klæjaði svo mikið að hann gat ekki sofið.
Þá hafði ofnæmið svo sannarlega náð að breiða úr sér og var hann með stórar hellur á lærum, rasskinnum, olnbogum og upphandleggjum, svo og kálfanum vinstra megin, en kálfinn hægra meginn (þar sem allt þetta hófst) var næstum roðalaus.

Ég fékk hálfgert áfall, reif hann úr öllum fötunum og kældi útbrotin með þvottapoka á meðan ég hringdi í Unnar sem var að spila með strákunum.
Hann kom heim og ég þaut með barnið á barnaspítala Hringsins.

Eftir talsverða bið þar fóru hellurnar að lýsast og þegar læknir var loks laus til að líta á barnið, var lítið eftir nema rauðar útlínur þar sem stuttu áður hafði verið eldrauð og þrútin hella.

En þrátt fyrir það gat læknirinn útilokað fæðu- og dýraofnæmi og sagði að þetta væri sennilega vegna þeirrar veirusýkingar sem hefur hrellt þá bræður undanfarin mánuð.

Björgvin fékk stera og á að halda áfram að taka ofnæmislyfið, þetta ætti að vera alveg horfið á morgun!


fimmtudagur, 7. janúar 2010

8 mánaða skoðun

Þorgeir er lítið tröll að vexti og mældist 74 cm. og 10,150 kg. í síðustu skoðun!

Hann er svo duglegur þessi elska, skríður út um allt og er alveg eins og sólargeisli í lífinu :)

mánudagur, 4. janúar 2010

Nýjar myndir

Nú eru komnar nýjar myndir inn á flickr síðuna okkar og lokum við þá árinu 2009 sem hefur verið viðburðaríkt og dásamlegt :)

http://www.flickr.com/photos/nornin/

sunnudagur, 3. janúar 2010

Nýtt ár

Gleðilegt ár allir saman.

Við fórum öll norður um jólin og nutum þar samvista við fjölskylduna.
Reyndar var ferðin ekki gleðileg að öllu leyti þar sem Brynja mágkona ömmu Sillu lést 12. desember og Andrea og Þorgeir fóru strax 17. des til að vera við jarðarförina.

Unnar og Björgvin mættu svo á Þorláksmessu og eftir það var norðurferðin bara hin besta.

Þorgeir Úlfar lærði að skríða í Strandgötu 6 á annan dag jóla og hefur verið óstöðvandi síðan. Hann hefur tekið upp siði stóra bróðurs og hámar nú í sig kattamat þegar færi gefst.
Ætli hann fái ekki skínandi og mjúkan feld fyrir rest :D

Hann er ekki ennþá búinn að læra að gera "hvað ertu stór" eða klappa, en það hlýtur nú að fara að koma.

Svo er 8 mánaða skoðunin á þriðjudaginn og þá fáum við að vita hvernig tröllabarnið dafnar :)